Starfsfólk

Starfsfólk

Félagið leggur áherslu á að stjórnendum og starfsfólki sé annt um vellíðan og heilbrigði samstarfsfólks síns. HB Grandi er fjölskylduvænn vinnustaður þar sem leitast er við að jafnvægi sé á milli fjölskyldu og einkalífs. Félagið leggur áherslu á gott vinnuumhverfi, öryggi og góðan aðbúnað starfsfólks. Starfsfólki félagsins stendur til boða árleg heilsufarsskoðun sér að kostnaðarlausu.

HB Grandi vinnur að því að skapa eftirsóknarverðan vinnustað og stuðla að sem bestu starfsumhverfi fyrir starfsfólk sitt á hverjum tíma. Félagið leggur áherslu á það í starfsmannastefnu sinni að innan þess starfi hæft og traust starfsfólk sem tryggir af fagmennsku og ábyrgð sjálfbæra nýtingu og hagkvæmni í umgengni við auðlindina. Árið 2018 voru að meðaltali 773 stöðugildi hjá samstæðunni miðað við heilsársstörf. Með tilkomu frystitogarans Vigra í skipaflota félagsins í lok árs, bættust við 53 ný stöðugildi. Stöðugildin voru því 826 í lok árs 2018 en voru 839 á árinu 2017.

Stöðugildi

Kynjahlutfall starfsfólks í prósentum

NÝTT UPPLÝSINGAKERFI MANNAUÐSMÁLA

Unnið var að því að endurskoða mannauðskerfi félagsins á árinu. Ákveðið var að taka upp Kjarna, mannauðskerfi sem þjónustað er af Origo fyrir samstæðuna. Stefnt er á að opna nýtt vefsvæði fyrir auglýsingu starfa hjá félaginu á árinu 2019. Jafnframt verður unnið að því að opna rafrænt fræðslukerfi fyrir starfsfólk og taka fyrstu skref í að opna „mitt svæði“ eða sjálfsafgreiðslu fyrir starfsfólk í gegnum Kjarna í lok árs 2019.

WORKPLACE

Þann 16. mars 2018 var opnað á Workplace hjá HB Granda á stórum starfsmannafundi sem haldinn var í Þjóðleikhúsinu. Tilgangurinn með því að taka Workplace í gagnið var að stytta boðleiðir innan HB Granda og taka í notkun öflugt samskipta- og samstarfstól. Reynslan hefur verið góð af notkun Workplace og er í dag betur tryggt að starfsfólk félagsins sé upplýst um starfsemi félagsins og helstu tíðindi. Starfsumhverfi félagsins er flókið; það nær til skipa innan og utan íslenskrar lögsögu, innan borga og bæja og ystu annesja. Þetta verkfæri hefur þjappað starfsfólki saman og er unnið að því að þróa það áfram til hagsbóta fyrir félagið og haghafa þess.

Jafnlaunavottun

Félagið hefur unnið samkvæmt aðgerðaráætlun í jafnréttismálum síðastliðin ár og fellur þessi vinna vel að þeim markmiðum sem unnið er eftir. Langflest störf á sjó eru unnin af karlmönnum, en flest störf í fiskiðjuverunum, þá sérstaklega á vinnslulínunum, eru unnin af konum. Félagið leitast við að fá jafnt karla sem konur til starfa í hinum ólíku starfshópum vinnustaðarins. Óheimilt er að mismuna starfsfólki hjá HB Granda vegna kyns, kynhneigðar eða ólíks uppruna.

Árið 2018 var haldið áfram að undirbúa jafnlaunavottun, en það hefur tekið lengri tíma en áætlað var. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Stefnt er að verkefninu ljúki fyrir sumarið 2019 og verða helstu niðurstöður þá kynntar fyrir starfsfólki.

Persónuverndarstefna

Lokið var við gerð persónuverndarstefnu fyrir félagið og hún birt á heimasíðu félagsins.

Mannréttindi og kjarasamningar

HB Grandi virðir almenn mannréttindi, rétt til félagafrelsis og kjarasamninga. Áhersla er lögð á að verktakar og undirverktakar fari eftir gildandi lögum í landinu er varðar allt starfsfólk, hvort sem um ræðir launþega eða eigin undirverktaka. Félagið virðir gildandi kjarasamninga og önnur lögbundin réttindi starfsfólks, meðal annars til orlofs, fæðingarorlofs, launa vegna óvinnufærni, veikinda eða slysa, auk annarra réttinda sem tekið er á í gildandi kjarasamningum á hverju starfssvæði félagsins. Í gegnum aðild félagsins að Samtökum atvinnulífsins á félagið samskipti við fjölmörg stéttarfélög um kaup og kjör starfsfólks félagsins. Níutíu og sjö prósent starfsfólks eru í stéttarfélögum.

Einelti og kynferðisleg áreitni eru ekki liðin hjá HB Granda. Til er aðgerðaráætlun um viðbrögð ef upp kemur grunur um einelti eða áreitni á vinnustaðnum, og var hún endurskoðuð á árinu. Félagið hefur ekki sett sér skrifleg viðmið um siðferði, spillingu, mannréttindi eða mútur en vinna við það er komin af stað og lýkur ef allt gengur að óskum árið 2019.

Fræðsla

HB Grandi leggur áherslu á að hjá félaginu starfi starfsfólk með framúrskarandi hæfni og fjárfestir fyrirtækið markvisst í fræðslu og þjálfun starfsfólks. Mikilvægt er að nýtt starfsfólk fái fræðslu og þjálfun við hæfi. Nýtt starfsfólk í vinnslunni hefur aðgang að starfsfóstra sem veitir stuðning og leiðsögn.

Með aukinni tæknivæðingu er auðveldara að ná til starfsfólks sem dreifist vítt um landið og sjó. Árið 2018 keypti HB Grandi nýtt fræðslukerfi sem heitir Eloomi. Allt starfsfólk HB Granda fær aðgang að kerfinu og verður fræðslu dreift í gegnum kerfið. Starfsfólk getur farið inn í fræðslukerfið í gegnum síma eða tölvu og tekið námskeiðin á þeim tíma sem hentar því best. Enn sem komið er hefur Eloomi verið notað fyrir nýliða og allri nýliðaþjálfun verið dreift í gegnum kerfið. Stefnt er að því að árið 2019 verði kerfið komið í fulla notkun.

Árið 2018 keypti HB Grandi nýtt fræðslukerfi sem heitir Eloomi. Allt starfsfólk HB Granda fær aðgang að kerfinu og fræðslu við hæfi

Slysavarnaskóli sjómanna

Árlega fara sjómenn á námskeið hjá slysavarnaskóla sjómanna. Helstu námskeiðin sem sjómenn sækja eru:

 • NSL 02.1 endurmenntun í öryggisfræðslu,
 • NSL 03.1 Framhaldsnámskeið eldvarna,
 • NSL 04.1 Líf- og léttbátar aðrir en hraðskreiðir léttbátar,
 • NSL 05.1 Sjúkrahjálp í skipum.

NSL 02.1 leggur áherslu á að starfsfólk auki þekkingu sína á notkun björgunar- og öryggisbúnaðar sem er um borð í skipum. Einnig eru kynntar nýlegar lagabreytingar sem varða öryggismál sjómanna ásamt nýjungum í öryggis- og björgunarbúnaði. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt.

Fiskvinnslunámskeið

Fiskvinnslufólk fer á fiskvinnslunámskeið sem snertir á helstu þáttum er varða starfið og starfsgreinina. Bóklega námið skiptist í tólf námsþætti, samtals 48 klst., og byggist á fyrirlestrum kennara/leiðbeinanda og myndrænni framsetningu og verkefnavinnu þátttakenda. Þegar starfsfólk hefur lokið námskeiðinu hækkar það í launum samkvæmt kjarasamningi. Í námskeiðinu er farið yfir:

 • fiskvinnslu – veiðar, vinnslugreinar og markaðsmál,
 • vinnustöðu og líkamsbeitingu,
 • öryggi á vinnustöðum,
 • hreinlæti og gerlagróður,
 • innra eftirlit í fiskvinnslufyrirtæki,
 • atvinnulíf, starfsfólk og launakerfin,
 • samstarf og samskipti á vinnustað,
 • fjölmenningu,
 • skyndihjálp,
 • sjálfstyrkingu,
 • umhverfismál og ábyrgar fiskveiðar,
 • gæði og meðferð matvæla – frá veiðum til vinnslu,
 • starfsþjálfun – metin við fólk í starfi.

Fjöldi fræðslustunda árið 2018

Námskeið Þátttakendur Heildar fjöldi fræðslustunda
Fiskvinnslunámskeið 30 1.530
Slysavarnaskóli sjómanna 66 1.340
Framkoma og ræðumennska 45 188
Nýliðanámskeið 108 216
Skyndihjálp 173 812
Starfsþjálfanámskeið 5 8
Viðskiptaenska 10 40
437 4.134

Starfsmannaskemmtanir

FJÖLSKYLDUHÁTÍÐ HB GRANDA Í HÚSDÝRA- OG FJÖLSKYLDUGARÐINUM

Í ágúst ár hvert hefur HB Grandi boðið starfsfólki og fjölskyldum þeirra til hátíðar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Starsfólk hefur verið mjög ánægt með hátíðina og mætingin jafnan verið með eindæmum góð. Líkt og fyrri ár fengu öll börn, 13 ára og yngri, dagpassa í leiktækin. Boðið var upp á andlitsmálun og blöðrudýr og allir fengu grillaðar pylsur. Ísvagn frá ísbúðinni Valdís var einnig á svæðinu og vakti mikla lukku.

JÓLATÓNLEIKAR HB GRANDA

HB Grandi býður starfsfólki árlega á jólatónleika. Árið 2018 var um að ræða Jólagesti Björgvins og voru tónleikarnir haldnir í Eldborgarsal Hörpu.

ÁRSHÁTÍÐ HB GRANDA

Árshátíð HB Granda er iðulega haldin daginn fyrir sjómannadaginn, enda er það eina helgin þar sem allir sjómenn félagsins hafa tækifæri til að sækja hátíðarhöldin.

Árshátíðin 2018 var haldin 2. júní á Hilton Reykjavík Nordica og heppnaðist virkilega vel. Um 500 manns sóttu árshátíðina og skemmtu sér saman.

Starfsmannafélög

Starfsmannafélag HB Granda er fyrir allt starfsfólk HB Granda til sjós og lands. Tilgangur félagsins er að efla félagslíf og kynningu meðal félagsmanna með skemmtiferðum, skemmtunum og hvers kyns menningar- og fræðsluefni sem félagsmönnum má að gagni verða. Starfsmannafélagið hefur undanfarin ár haft það að markmiði að vera með haust- og vorfagnað, jólahlaðborð og jólaball fyrir börn starfsfólks. Starfsmannafélagið á sumarbústað á Flúðum sem leigður er út allt árið um kring.

Starfsfólk HB Granda á Vopnafirði velur um að vera í starfsmannafélagi HB Granda eða í starfsmannfélagi HB Gra​nda á Vopnafirði. Fjarlægðin milli Reykjavíkur og Vopnafjarðar er mikil og starfsfólk Vopnafjarðar getur sjaldan lyft sér á kreik með Starfsmannafélagi HB Granda nema í apríl - júní þar sem annar tími fer í vaktir.

Starfsmannafélagið á Vopnafirði var endurvakið í tíð Tanga í kringum árið 2002, en þá hafði það legið niðri í mörg ár.

Öryggi

Nýtt skipulag öryggismála var tekið upp á árinu og miðar að því að auka vægi málaflokksins innan félagsins og efla skilvirkni öryggismála. Ábyrgð á öryggismálum hvílir á herðum stjórnenda. Þá eru starfandi öryggisnefndir á öllum sviðum fyrirtækisins og hafa þær skýr hlutverk. Mannauðssvið félagins annast umsjón og eftirlit með málaflokknum.

Hver og einn starfsmaður ber ábyrgð á eigin öryggi. Ein af grunnforsendum þess að okkur takist að fækka slysum er að allir axli ábyrgð og stjórnendur jafnt sem starfsfólk einsetji sér að vinna að bættu öryggi. Stjórnendur bera ábyrgð á að búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnusvæðum og starfsstöðvum sem þeir hafa umsjón með.

Félagið byggir starfið á því að stjórnendur sýni gott fordæmi og leiði vinnuverndarstarf félagsins.

ÖRYGGIS- OG VINNUVERNDARSTEFNA

HB Grandi er traustur vinnustaður þar sem stjórnendum og starfsfólki er annt um vellíðan og heilbrigði samstarfsfólks síns. Öryggisstjórnunarkerfi félagsins nær yfir alla starfsemi þess, skráningu og rýni slysa og atvika. Áhættumat og öryggisreglur eru lykilþættir, auk þess sem markviss þjálfun og fræðsla gegna mikilvægu hlutverki.

Við hjá HB Granda einsetjum okkur að vinna markvisst að öryggis- og vinnuverndarmálum og skapa starfsfólki öruggt vinnuumhverfi.

 • Við berum öll ábyrg þegar kemur að öryggis og vinnuverndarmálum.
 • Við berum virðingu hvert fyrir öðru og pössum hvert upp á annað.
 • Við erum stolt af því að vinna á vinnustað þar sem öryggismál eru tekin alvarlega.

Öryggisnefndir og öryggisfulltrúar

Öryggisnefndir eru starfandi hjá félaginu og taka til allra starfstöðva þess skv. reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006. Öryggismál eru hluti starfsmannastefnu félagins og er lögð áhersla á að starfsfólk fylgi öryggisreglum á vinnustað, taki þátt í öryggisfræðslu og bendi á það sem betur mætti fara í öryggismálum.

Hjá félaginu eiga 73 starfsmenn sæti í öryggisnefndum. Alls eru 14 öryggisnefndir hjá félaginu. Öryggisfulltrúi er samheiti yfir annars vegar öryggisverði sem eru tilnefnir af stjórnanda viðkomandi starfstöðvar og hins vegar öryggistrúnaðarmenn sem eru kosnir af starfsfólki fyrirtækis. Hlutverk öryggisfulltrúa er að sjá til þess að málefni öryggis- og vinnuverndarmála séu í samræmi við lög* og stefnu félagsins.

* Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. Reglugerð um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum nr. 200/2007

HJÁ FÉLAGINU ERU ALLS 73 ÖRYGGISFULLTRÚAR SEM EIGA SÆTI Í 14 ÖRYGGISNEFNDUM

FORVARNIR

Öryggis- og vinnuverndarmál eru mikilvægur þáttur í fræðsluáætlun HB Granda. Í nýliðafræðslu fer starfsfólk félagsins vandlega yfir atriði er varða öryggi og vinnuvernd fyrirtækis.

Forvarnir og fræðsla um borð í skipum fer að stórum hluta fram í gegnum nýliðafræðslu sem skipstjórnendur sinna og einnig á reglulegum björgunaræfingum þar sem öll áhöfn skips tekur þátt í æfingunni. Lögð er áhersla á að skipstjórnendur haldi reglulegar björgunaræfingar, og það minnst tólf sinnum á ári.

ÖRYGGISDAGUR HB GRANDA 2018

Öryggisdagur HB Granda var haldinn í þriðja sinn 29. nóvember 2018. Öryggisdagurinn þjónar því hlutverki að viðhalda nauðsynlegu samtali innan HB Granda um öryggi starfsfólks. Þar komu saman stjórnendur, öryggisfulltrúar og starfsfólk HB Granda. Forstjóri HB Granda setti fundinn með ávarpi. Framkvæmdastjóri fór yfir nýtt skipulag á öryggismálum og nýjum áherslum. Forstöðumaður mannauðssviðs fór yfir tölfræði á slysum í samanburði við fyrri ár og fyrirkomulagi á rafrænum slysaskráningum. Tæknistjóri skipa fór yfir slys á sjó og verkstjóri í Norðurgarði fór yfir slys í landi og stöðu á öryggismálum í fiskiðjuveri.

Slys

HB Grandi leggur áherslu á að öll slys séu skráð og eru verkferlar og vinnuupplýsingar kynnt fyrir starfsfólki. Öll slys ber að skrá með rafrænum hætti á innri vef HB Granda. Fjarveru- og umönnunarslys starfsfólks í landi eru tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins, Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélags. Fjarveruslys starfsfólks á sjó eru tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands, Rannsóknarnefndar sjóslysa og tryggingafélaga.

 • Fjarveruslys: Slys sem valda fjarvistum frá vinnu (vinnuslys), þ.e. slysadag + næsta dag eða lengur.
 • Umönnunarslys: Slys þar sem hinn slasaði þarf að leita sér aðstoðar á heilsugæslu en mætir til vinnu daginn eftir.
 • Skyndihjálparslys: Minniháttar slys eða slys sem krefjast notkunar skyndihjálpar­búnaðar (smáskurðir o.þ.h.). Viðkomandi heldur áfram vinnu.
 • Frítímaslys: Slys sem verða í frítíma starfsfólks eða á leið til eða frá vinnu.

ÁHÆTTUÞÆTTIR Í STARFSEMI HB GRANDA

Með tilkomu rafrænnar slysaskráningar aukast möguleikar á úrvinnslu gagna til muna. Samtals voru tilkynnt 90 slys á árinu 2018, 63 slys á landi og 27 slys á sjó. Á árinu 2017 voru tilkynnt 58 slys, 42 slys á landi og 17 slys á sjó. Á árinu 2016 voru tilkynnt 86 slys, 60 slys á landi og 26 á sjó.

Árið 2017 hófst með sjómannaverkfalli sem lauk 17. febrúar og skýrir mikinn mun á slysatíðni milli ára í janúar og febrúar.

Slys 2016 - 2018

ORSÖK ÁVERKA EFTIR TEGUND SLYSS

Þegar rýnt er í öll skráð slys árið 2018 má sjá að fjarveruslys urðu helst vegna högga af einhverju tagi. Einnig eru alvarleg slys tengd hnífum og því þegar starfsfólk klemmist nokkuð tíð.