HB Grandi

Um HB Granda

HB Grandi framleiðir verðmætar afurðir úr fiski sem aflað er úr hafinu við Ísland. Lögð er rík áhersla á nýsköpun og háþróaða tækni við veiðar og vinnslu sjávarafurða og stöðuga þróun framleiðslunnar. Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar liggur til grundvallar starfsemi HB Granda og leggur félagið sig fram um að nýta auðlindir hafsins af virðingu og fullnýta þann afla sem skip þess færa að landi svo að komandi kynslóðir megi áfram njóta þeirra. HB Grandi ber jafnframt ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þannig er stefna félagsins sú að starfsemi þess endurspegli ábyrgð gagnvart auðlindum til sjós og lands og samfélaginu sem heild.

HB Grandi er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akranesi og á Vopnafirði. Á árinu voru átta fiskiskip í rekstri, en með nýlegum kaupum á Ögurvík ehf. bættist frystiskipið Vigri RE við reksturinn í byrjun árs 2019.

Aðalskrifstofur félagsins eru við Norðurgarð í Reykjavík. Þar er framkvæmdastjórn félagsins staðsett ásamt fjármála-, botnfisk-, uppsjávar-, markaðs- og mannauðssviði. Fjöldi stöðugilda voru að meðaltali 773 árið 2018 og spannar hlutverk þeirra alla virðiskeðjuna, þ.e. veiðar, vinnslu, sölu og dreifingu á afurðum félagsins. Félagið er skráð á aðalmarkaði kauphallar, NASDAQ OMX Ísland.

Árið 2018 voru afurðir seldar til 34 landa. Sala til hinna tíu stærstu nam yfir 83% af söluverðmætinu. Stærstu markaðssvæðin árið 2018 voru Frakkland, Noregur, Þýskaland og Bretland. Tuttugu og fjögurra prósenta aukning varð á sölu ferskra afurða á síðasta ári. Í árslok voru dótturfélög HB Granda Vignir G. Jónsson, Norðanfiskur, Blámar og Ögurvík. Félagið á einnig 20% hlutdeild í Deris S.A. í Síle, 33,33% í Laugafiski og 25% í Marine Collagen ehf.

Félagið leggur sig fram um að nýta auðlindir hafsins af virðingu og fullnýta þann afla sem skip þess færa að landi svo að komandi kynslóðir megi áfram njóta þeirra.

Stefna og framtíðarsýn

Í kjölfar breytinga á hópi eigenda og stjórnenda er stefna félagsins og framtíðarsýn í endurskoðun. HB Grandi leggur í starfi sínu áherslu á samfélagsábyrgð og virðingu fyrir umhverfinu.

Áherslur eru einfaldur og sjálfbær rekstur, markviss nýting fiskveiðiheimilda, vöxtur og aukin arðsemi og öflugt samstarfi við önnur fyrirtæki á sviði rannsókna-, markaðs- og sölumála.

Um skýrsluna

Upplýsingar í skýrslunni ná til HB Granda án dótturfélaga fyrir árið 2018, nema annað sé tekið fram. Þetta er önnur samfélagsskýrsla HB Granda en fyrsta skýrsla félagsins var gefin út fyrir árið 2017.

Síðustu ár hefur HB Grandi byggt upp mikla innanhússþekkingu á málefnum samfélagsábyrgðar og unnið að því að kortleggja áhrif og ábyrgð félagsins. Þeirri vegferð er fjarri því lokið.

Mælikvarðar eru endurskoðaðir árlega með tilliti til breyttrar starfsemi og aukins aðgangs að upplýsingum. Nokkrir nýir mælikvarðar hafa bæst við og og á þeim eftir að fjölga enn á næstu árum. Á árinu 2018 var unnið að því að bæta upplýsingakerfi til að ná betur utan um þá mælikvarða sem eiga við hjá félaginu. Þeirri vinnu hefur miðað vel fram en er enn ólokið. Eftirfarandi skýrsla er í meginatriðum eins upp byggð og sú fyrsta, nema hvað öryggismál eru nú tekin fyrir í kaflanum um starfsfólk. Þessi breyting stafar af skipulagsbreytingum; í kjölfar þeirra heyra öryggismál undir mannauðssvið félagsins.

Skýrslan tekur saman þá þekkingu sem byggð hefur verið upp hjá félaginu, en er ekki tæmandi úttekt á öllum þeim áhrifum sem HB Grandi hefur á umhverfi, samfélag og efnahag. Allar upplýsingar eru í samræmi við þá þekkingu sem við höfum yfir að búa á þeim tíma sem skýrslan er rituð. Umhverfisupplýsingum er safnað beint frá samstarfsaðilum inn í umhverfisgagnagrunn félagsins. Skýrslan er ekki endurskoðuð af þriðja aðila.

Samfélagsskýrsla HB Granda er unnin samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative, G4. Uppgjör á umhverfisþáttum er unnið úr umhverfisstjórnunarkerfi félagsins, Klappir Core. Upplýsingar um félagslega og efnahagslega þætti koma úr upplýsingakerfum HB Granda.