Efnahagur

Veiðigjald og skattaspor HB Granda 2018

Verðmætasköpun af rekstri HB Granda á árinu 2018 nam 26.133 milljónum króna sem ráðstafað var til samfélagsins með margvíslegum hætti, svo sem með launagreiðslum til starfsfólks, kaupum á aðföngum frá birgjum, arðgreiðslum til hluthafa, greiðslu opinberra gjalda o.s.frv.

Skattbyrði félagsins vegna ársins 2018 nam 2.880 milljónum króna en þar af nam veiðigjald 1.068 milljónum króna.

Til viðbótar við ofangreinda skatta, sem gjaldfærðir voru hjá félaginum, innheimti það og stóð skil á sköttum og gjöldum að upphæð 2.824 milljónum króna, sem tengjast rekstrinum og þeim verðmætum sem hann skilar með beinum hætti.

Skattaspor félagsins nam því samtals 5.704 milljónum króna á árinu 2018.

Félagið er stolt af framlagi sínu til samfélagsins og þeirri félagslegu uppbyggingu sem þar á sér stað.

Fjárhagslegt verðmæti sem félagið skapaði með rekstri sínum árið 2018

Skattaspor HB Granda Eining 2018 2017 2016
Gjöld félagsins: m.ISK 2.880 2.625 3.271
Veiðigjald 1.068 756 809
Skattbyrði vegna starfsfólks 1.337 1.291 1.349
Afla- og hafnargjöld 134 184 201
Skattar á eignir 103 136 106
Tekjuskattur 31 129 668
Kolefnagjald 206 128 138
Aðrir skattar 1 1 -
Innheimtir skattar: m.ISK 2.824 2.870 3.231
Skattbyrði starfsfólks 2.699 2.686 2.884
Afdráttarskattar 125 184 347
Skattaspor HB Granda m.ISK 5.704 5.495 6.502

Fjárfestingar í innviðum og þjónustu samfélagsins

HB Grandi er meðvitað um hlutverk sitt þegar kemur að fjárfestingum í innviðum og þjónustu í þeim samfélögum þar sem félagið hefur starfsstöðvar. Fjárfestingar félagsins, t.d. á Vopnafirði, þar sem fram hefur farið uppbygging uppsjávarvinnslu félagsins með auknum veiðiheimildum, sýnir að félagið telur slíka fjárfestingu mikilvægan grundvöll þess að á Vopnafirði viðhaldist traust búsetuskilyrði til frambúðar. Stór hluti af beinum og óbeinum störfum skapast með starfsemi HB Granda á staðnum. Því hefur sveitarfélagið haft stuðning frá HB Granda við að hlúa að og efla innviðauppbyggingu og þjónustu í samfélaginu, s.s. í mennta- og menningarmálum, íþróttalífi, þjónustu og samgöngum, svo að fátt eitt sé nefnt.

Stjórnendur úr nærsamfélagi

HB Grandi hefur þrjár skilgreindar starfsstöðvar. Þær eru í Reykjavík, á Akranesi og á Vopnafirði. Starfsemi félagsins á landsbyggðinni annast að mestu leyti stjórnendur úr viðkomandi nærsamfélagi.

Innkaupastefna og birgjamat

Það er stefna HB Granda að styðja við þá starfsemi á Vopnafirði, á Akranesi og í Reykjavík sem tengist á einhvern hátt félaginu eða er mikilvæg fyrir samfélögin á viðkomandi svæðum. Við val á birgjum og þjónustuaðilum gerir HB Grandi þær kröfur að gæði, þjónusta og samkeppnishæft verð, ásamt samkeppnissjónarmiðum, séu ætíð í hávegum höfð. Fari þessir fjórir þættir saman fæst hagkvæmasta verðið hverju sinni, sem aftur gerir HB Granda kleift að hámarka gæði vöruúrvalsins og bæta þjónustu sína.

Birgjar í nærsamfélagi

HB Grandi skilgreinir Ísland sem nærsamfélag sitt. Hlutfall innlendra birgja í keyptum rekstrarkostnaði, vöru og þjónustu er 96% af heildarinnkaupum félagsins fyrir árið 2018. Þar telst endurnýjun skipaflotans ekki með. HB Grandi hefur í flestum tilfellum gert kröfur um að birgjar haldi vörulager fyrir starfsemi félagsins og að afgreiðslan sé í samræmi við notkun hverju sinni. Öllum kostnaði og rýrnun við birgðahald er þannig haldið í lágmarki. Staðsetning fyrirtækisins á landsbyggðinni gerir það að verkum að fyrirtækið sækir þá þjónustu sem í boði er á viðkomandi stöðum og styður þannig við nærsamfélag sitt. Þetta skiptir félagið og starfsfólk þess miklu máli.

HB Grandi hefur nú í tvö ár í auknum mæli stýrt innkaupum á rekstrarvörum í gegnum innkaupavefinn Timian. Það hefur gefist vel. Birgjar eru valdir inn eftir því hvort vörur þeirra og þjónusta standist gæðakröfur HB Granda. Hagkvæmasta verðið ræður því svo af hvaða birgja félagið kaupir vöruna.

Umhverfisáhrif birgja

Liður í verkefninu „Hrein virðiskeðja sjávarútvegs“ er söfnun upplýsinga um umhverfisáhrif þeirrar þjónustu og þess varnings sem HB Grandi verslar af sínum birgjum. Slík upplýsingasöfnun gefur HB Granda færi á því að byggja upp þekkingu á losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum rekstrareiningum félagsins og allri virðiskeðju þess. Þannig getur félagið tekið upplýsta ákvörðun um að eiga viðskipti við þá birgja sem valda minnstum umhverfisáhrifum og þar með dregið á markvissan hátt úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi félagsins.

Á árinu 2016 fór HB Grandi að setja inn ákvæði í stærstu innkaupasamninga félagsins varðandi umhverfismál. Ákvæðið er svohljóðandi:

„HB Grandi er aðili að loftslagsyfirlýsingu Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, og Reykjavíkurborgar sem undirrituð var af 104 fyrirtækjum í Höfða árið 2015. Með þeirri yfirlýsingu hefur félagið skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum. Hluti af því er m.a. að kortleggja áhrif þjónustuaðila og starfsemi þeirra á rekstur HB Granda sem mun endurspeglast í umhverfisuppgjöri sem félagið sendir frá sér árlega. Til að styðja við þessi markmið munu þjónustuaðilar skuldbinda sig, í byrjun hvers árs eða með reglubundnum hætti, til að upplýsa um umhverfisáhrif þeirra á rekstur HB Granda fyrir líðandi ár.“

Í dag geyma sautján samningar við stærstu birgjana þetta ákvæði.

Í dag geyma sautján samningar við stærstu birgja félagsins ákvæði um umhverfismál

Stafrænar lausnir og nýsköpun

Stafrænar lausnir og fjórða iðnbyltingin munu gjörbylta sjávarútvegi sem og öðrum atvinnugreinum. Við hjá HB Granda erum meðvituð um þessa tækniþróun og vinnum með ýmsum félögum að nýsköpun og áhugaverðum lausnum á sviði stafrænnar tækni.

Hátækniskip

Skilgreining aflamarks um borð í veiðiskipi

Tækniþróunarsjóður hefur veitt styrk til að þróa búnað sem skilgreinir aflamark strax um borð í fiskiskipi sem samþykkt væri af opinberum aðilum. Grunnurinn af því er áframhaldandi þróun á tölvusjón sem er nú þegar um borð í nýjum togurum félagsins. Þáttakendur í þessu verkefni eru, auk HB Granda, Skaginn 3X, FISK Seafood, Iceprotein og Fiskistofa.

Miðlun hafveðurmælinga úr skipum

HB Grandi hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf við Veðurstofu Íslands og BitVinci ehf. um miðlun og skráningu á hafveðurmælingum úr skipum félagsins. Hafveðurmælingar eru lykilathuganir sem gera Veðurstofunni kleift að gegna öryggishlutverki sínu sem skyldi, t.a.m. í tengslum við veðurspár og viðvaranir, en einnig varðandi rannsóknir á loftslagsbreytingum. HB Grandi vill taka virkan þátt í söfnun mælinga sem geta gert sjóveðurspár nákvæmari, nýtast við rannsóknir á loftslagsbreytingum og við rannsóknir á afkomu sjávarauðlinda í framtíðinni. BitVinci ehf. heldur utan um verkefnið.

Veiðarfæri

Síðasta haust var tekinn um borð í Akurey nýr fjögurra byrða skálmpoki frá Hampiðjunni. Trollpokinn hefur reynst vel. Með honum minnkar þrýstingur á fiskinn og hann kemur allur lifandi um borð sem þýðir að gæði hráefnis aukast.

Á árinu tók HB Grandi áfram þátt í tveimur þróunarverkefnum sem hafa þann tilgang að ná betri árangri við botnvörpuveiðar. Annað nefnist „Breiðvarpan“ og er samvinnuverkefni HB Granda og Hampiðjunnar. Hitt verkefnið er þróun á nýrri gerð toghlera í samvinnu við Ekkó toghlera.

Bæði verkefnin hafa þann tilgang að auka framleiðni félagsins með því að auka afla á sóknareiningu, ná fram hærra aflaverðmæti með bættum gæðum afla, lækka eldsneytiskostnað og draga úr kolefnislosun.

Endurnýjun skipaflota

Árið 2013 ákvað HB Grandi að endurnýja skipaflota félagsins. Árið 2017 fékk félagið afhent þrjú ný ísfiskskip og hóf rekstur á tveimur þeirra árið 2018; Akurey AK og Viðey RE. Engey RE hóf rekstur árið 2017. Uppsjávarflotinn var að fullu endurnýjaður árið 2015. Fjárfesting í skipaflota frá árinu 2013 nemur 157 milljónum Evra. Þar af voru 35 milljónir Evra greiddar á árinu 2018.

Miklar tækniframfarir hafa átt sér stað með tilkomu nýrra hátækniskipa félagsins, enda um að ræða stærsta þróunarverkefni í íslenskum sjávarútvegi til þessa. Afraksturinn eru byltingarkenndar lausnir á heimsvísu þar sem tekist hefur að viðhalda gæðum afurða betur en áður og útrýma hættulegustu og jafnframt mest slítandi störfunum um borð.

Hver fiskur er ljósmyndaður eftir slægingu þar sem hann er tegundagreindur ásamt því að vera rúmmáls- og lengdarmældur. Í framhaldinu er fiskurinn kældur með SUB-Chilling kæliferli án íss sem viðheldur gæðum og geymsluþoli. Eftir íslausa kælingu er fiskurinn settur með sjálfvirkum hætti í númeruð geymslukör á vinnsludekki skipsins. Geymslukarið er svo flutt með sjálfvirkum hætti niður í lest skipsins og kemur mannshöndin þar hvergi nærri. Þegar í land er komið sér skipið sjálft um að losa geymslukörin í land.

Með hugbúnaðarkerfinu Trackwell skrá skipstjórar niður afla og tegundagreiningu í hverju einasta kasti/holi. Þessar skráningar tóku við af gömlu afladagbókinni sem færð var handvirkt. Við skráningu gefst möguleiki á að skrá stærðarskiptingu afla og fleiri upplýsingar sem nýtast síðar í sögulegu samhengi.

SJÁLFVIRK VINNSLA

Ný og fullkomin pökkunarstöð fyrir frystar afurðir var tekin í notkun árið 2018. Nýja pökkunarstöðin er í Ísbirninum og kemur í stað eldri pökkunarstöðvar sem var í fiskiðjuverinu í Reykjavík. Með tilkomu nýju pökkunarstöðvarinnar urðu miklar framfarir þar sem hún er mun afkastameiri og sjálfvirkari en sú eldri.

Árið 2009 hófu HB Grandi og Valka ehf. samstarf um að þróa röntgenstýrða vatnsskurðarvél sem skorið gæti beingarð á sjálfvirkan hátt úr karfaflökum. Árið 2017 afhenti Valka svo nýja skurðarvél ásamt flokkunarbúnaði til að skera karfa. Er hún ríflega tvöfalt afkastameiri en fyrsta vélin, auk þess sem hún er mun sjálfvirkari. Í millitíðinni keypti HB Grandi fyrstu skurðarvélina sem notuð var til að skera þorsk og gekk sú þróun einnig mjög vel. Þessi nýja tækni hefur valdið straumhvörfum í vinnslu á botnfiski og skapað vinnslufyrirtækjum nýja möguleika við að hámarka virði aflans.

HB Grandi nýtir sér Innova framleiðslukerfi í framleiðslustýringu botnfiskvinnslu félagsins í Reykjavík. Þegar fiskur kemur í hús er hann skráður til vinnslu í kerfinu og síðan haldið utan um framleiðslu afurða á stafrænan hátt og rekjanleika haldið frá veiðiskipi.

RapidFish gæðaskoðun er öflugt kerfi til að skrá gæði aflans og hjálpar kerfið HB Granda að tryggja að öllum gæðastöðlum sé fylgt.

Fiskmjölsverksmiðjan á Vopnafirði hefur tekið í notkun NIR tæki (e. Near Infrared Analysis). NIR-mælar nota infrarauðan geisla til að mæla efnasamsetningu fiskmjöls, t.d prótein, fitu, salt, TVN o.fl. Slíkur mælir hefur verið í notkun á rannsóknarstofum félagsins í nokkur ár. Nýi mælirinn er frábrugðinn að því leyti að hann er staðsettur í framleiðslulínunni og er nettengdur.

SNJÖLL UMHVERFISSTJÓRNUN

HB Grandi hefur verið brautryðjandi í innleiðingu á sjálfvirkri, snjallri umhverfisstjórnun, sem felst m.a. í því að safna sjálfvirkt gögnum um umhverfisþætti félagsins og miðla upplýsingum til hagaðila. Hluti af snjallri umhverfisstjórnun hefur verið rafvæðing á upplýsingaferlum sem lögboðnir eru fyrir skip skv. umhverfislöggjöf, þ.m.t. MARPOL-samningnum. Einnig hefur verið sett upp rafrænt eftirlit fyrir eftirlitsstofnanir þar sem eftirlitsaðilar geta sinnt eftirlitshlutverki sínu á fjarrænan hátt í gegnum vefviðmót í stað þess að framkvæma eftirlitsskoðnir á staðnum. Að auki eru komnir snjallgámar (e. smart containers) og snjallvogir (e. smart scales) á sorpflokkunarstöðvar félagsins. Þessi tæki rauntímaskrá endurvinnslu hráefnis og sorps og skila upplýsingum rafrænt inn í umhverfisgagnagrunn félagsins.

FJARLÆKNINGABÚNAÐUR

Síðustu ár hefur HB Grandi unnið að því í samstarfi við Radíómiðun, Símann og Sjúkrahúsið á Akureyri að koma á fjarlækningabúnaði í skipum félagsins. Slíkt kerfi er komið um borð í báðum uppsjávarskipum félagsins, Víking AK og Venus NS og fer brátt í fleiri skip félagsins. Þegar slys eða veikindi verða um borð og búnaður í sjúkraklefa er ræstur er öllu aðgengilegu netsambandi á svæðinu beint í sjúkraklefann. Úr sjúkraklefanum má þá senda lifandi myndband af sjúklingnum ásamt helstu mæligildum lífsmarka sem læknirinn þarf til að meta ástand sjúklingsins. Þessi búnaður getur skipt sköpum þegar meta á hvort kalla þurfi til þyrlu eða ekki, auk þess sem hann styður skipstjórnarmenn við umönnun sjúklingsins.

HB Grandi hefur einnig tekið í notkun stafrænt slysaskráningarkerfi sem er aðgengilegt í gegnum innri upplýsingavef félagsins. Tilgangur kerfisins er að auðvelda starfsfólki að skrá slys og tryggja að öryggisstjórn félagsins hafi yfirsýn um þau slys sem verða, og enn fremur að þau séu rýnd og viðeigandi ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir frekari slys.

Stjórnarhættir

Stjórn og forsvarsmenn HB Granda leggja ríka áherslu á að viðhafa góða stjórnarhætti svo að tryggt sé að starf stjórnarinnar sem og starfsemi félagsins í heild uppfylli þau viðmið sem gilda um góða viðskiptahætti. Félagið er skráð á aðalmarkaði NASDAQ-kauphallarinnar á Norðurlöndunum og fylgir þeim samskiptareglum sem þar gilda. Aðalfundur er haldinn árlega og fjárfestafundir haldnir fjórum sinnum yfir árið.

Hér fyrir neðan má nálgast upplýsingar um stjórn, stjórnarháttayfirlýsingu og starfsreglur stjórnar þar sem gerð er grein fyrir samsetningu stjórnar, aðgreiningu valds og ákvarðanatöku.

Helstu ákvarðanir stjórnar á árinu 2018 voru:

  • Guðmundur Kristjánsson ráðinn forstjóri HB Granda.
  • Kaup á félaginu Ögurvík ehf. sem gerir út Vigra RE og ákvörðun staðfest á hluthafafundi.
  • Samþykkt á nýju skipuriti.

Undirnefndir stjórnar voru skipaðar þannig af stjórn félagsins:

Endurskoðunarnefnd
Eggert Benedikt Guðmundsson formaður – situr í stjórn
Anna G. Sverrisdóttir situr í stjórn
Gunnar Ásgeirsson óháður
Starfskjaranefnd
Magnús Gústafsson formaður – situr í stjórn
Danielle Pamela Neben situr í stjórn
Kristrún Heimisdóttir situr í stjórn

Rekstraruppgjör

Eining 2018 2017
Tekjur EUR(000) 189.986 193.198
Rekstrargjöld EUR(000) 170.712 175.792
Aðrar rekstrartekjur EUR(000) 12.342 10.592
Rekstrarhagnaður 31.616 27.998
Laun og hlunnindi greidd á Íslandi EUR(000) 67.684 71.125
Greiðslur til eigenda EUR(000) 10.359 16.338
Vaxtagreiðslur til lánveitenda EUR(000) 5.764 3.959
Verulegur fjárhagslegur stuðningur frá opinberum aðilum EUR(000) - -
Skattaívilnun vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna EUR(000) 675 349
Hlutfall stjórnenda úr nærsamfélagi % 100 100
Hlutfall birgja úr nærsamfélagi % 96 96