Árið 2018 í hnotskurn

BREYTINGAR Á STARFSEMI

 • Ný skip Akurey AK og Viðey RE tóku við af ísfisktogurunum Sturlaugi H. Böðvarssyni AK og Ottó N. Þorlákssyni RE sem fóru sína síðustu veiðiferð fyrir HB Granda.
 • Brim hf. keypti allt hlutafé Vogunar hf. í HB Granda og kom inn sem nýr kjölfestufjárfestir.
 • Vilhjálmur Vilhjálmsson lét af störfum á miðju ári og Guðmundur Kristjánsson tók við forstjórastarfinu.
 • Nýtt skipurit HB Granda var samþykkt af stjórn félagsins. Með því var skipulag félagsins einfaldað þar sem markmiðið er að auka áherslu á kjarnastarfsemi.
 • Fiskeldisfyrirtækið Salmones Friosour S.A. var selt um mitt árið, en HB Grandi átti 20% hlut í félaginu í gegnum Deris S.A. í Síle.
 • Á seinni hluta árs var tekin ákvörðun um að endurskipuleggja rekstur botnfiskvinnslu félagsins á Vopnafirði. Áfram er stefnt að því að hafa starfsemi á Vopnafirði á milli vertíða en verið er að skoða hvernig best er að haga henni.
 • Í byrjun nóvember samþykkti hluthafafundur kaup HB Granda á Ögurvík ehf. sem gerir út frystitogarann Vigra RE. Vigri RE er eitt kvótahæsta fiskiskip íslenska fiskiskipaflotans með 7.680 tonn af botnfiski og 1.663 tonn af makríl miðað við úthlutun árið 2018.
 • Stjórn félagsins samþykkti í nóvember að kanna mögulega sölu á nýjum togara, sem er í smíðum á Spáni.

Dagleg starfsemi

 • Innleiðing á umhverfisstjórnunarkerfi HB Granda hélt áfram.
 • Keypt var nýtt fræðslukerfi sem heitir Eloomi. Allt starfsfólk HB Granda fær aðgang að kerfinu og fræðslu við hæfi.
 • HB Grandi og Norðanfiskur hættu alfarið að urða frauðplast með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Þess í stað er allt frauðplast pressað um 95% og er fyrsti gámurinn tilbúinn til útflutnings.
 • Í byrjun árs voru snjallgámar og snjallvogir komnar á allar flokkunarstöðvar HB Granda.
 • Undirbúningi jafnlaunavottunar var haldið áfram, en verkefnið hefur tekið lengri tíma en áætlað var.
 • Lokið var við gerð persónuverndarstefnu fyrir félagið og hún birt á heimasíðu félagsins.
 • Workplace, öflugt samskipta- og samstarfstól, var tekið í notkun í byrjun árs til að tengja saman starfsstöðvar HB Granda á landi og sjó og stytta boðleiðir.
 • Á fyrsta ársfjórðungi var tekin í notkun ný og fullkomin pökkunarstöð fyrir frystar afurðir í Ísbirninum, frystigeymslu félagsins.
 • Nýr viðlegukantur var tekinn í notkun um mitt ár við fiskiðjuver félagsins við Norðurgarð í Reykjavík, sem stórbætir alla aðstöðu til löndunar.
 • Öflugum landtengingum var komið fyrir í nýja viðlegukantinum. Nú geta ísfiskskip félagsins tengst þar bæði við rafmagns- og hitaveitu í landlegu.
 • Reynsla er nú komin á nýju ísfiskskipin. Eftir byrjunarörðuleika hafa skip og búnaður staðið undir væntingum og með tilkomu þessara nýju skipa hefur félagið tekið stórt stökk inn í nýja tíma.
 • HB Grandi og Íslensk orkumiðlun skrifuðu undir samning um raforkuviðskipti frá og með 1. janúar 2019. Um er að ræða orkusölu til allra starfsstöðva HB Granda sem nemur 65 GWst. á ári og samsvarar raforkunotkun um 15 þúsund heimila.
 • Öryggisdagur HB Granda var haldinn í nóvember 2018.
 • Þúfan var lagfærð eftir miklar skemmdir í vatnsveðri um vorið.
 • HB Grandi er framúrskarandi fyrirtæki af Creditinfo árið 2018. HB Grandi hefur verið á þessum lista frá árinu 2010.

Umfjöllunarefni

Í þessum kafla verður tæpt á nokkrum álitamálum sem komið hafa upp á árinu 2018.

Það er yfirlýst stefna HB Granda að stunda ábyrga verðmætasköpun úr sjávarfangi. Í því felst að hámarka verðmæti úr þeim sameiginlegu náttúruauðlindum sem félaginu er treyst fyrir og gera það á hagkvæman og arðsaman hátt.

Saga HB Granda er saga umbreytinga, nýsköpunar og tækniþróunar. Félagið ætlar sér að halda áfram að móta framtíð sjálfbærs sjávarútvegs á Íslandi.

HB Grandi vill vera til fyrirmyndar í samfélaginu og starfsfólk félagsins leggur sig fram um að vera félaginu til sóma í störfum sínum. Reglulega kemur upp umræða um samfélagsábyrgð þegar félagið stendur fyrir breytingum á starfseminni. Öllum breytingum, sem félagið ákveður að innleiða, sama hversu umdeildar þær kunna að vera, er ætlað að styrkja fyrirtækið sem heild og tryggja áframhaldandi vegferð þess og allra sem þar starfa.

Endurskipulagning félagsins

HB Grandi er að ganga í gegnum skeið breytinga. Í kjölfar mikilla viðskipta á árinu 2018 með hlutabréf í félaginu settust nýir eigendur í öndvegi. Í framhaldinu varð breyting á yfirstjórn þess. Nýr forstjóri tók við og framkvæmdastjórum var fækkað úr sex í tvo. Þrír einstaklingar skipa nú framkvæmdastjórn. Nýtt skipurit HB Granda var samþykkt af stjórn félagsins. Með því var skipulag félagsins einfaldað þar sem markmiðið er að styðja við aukna áherslu á kjarnastarfsemi.

Á seinni hluta árs var tekin ákvörðun um að endurskipuleggja rekstur botnfiskvinnslu félagsins á Vopnafirði. Áfram er stefnt að því að hafa starfsemi á Vopnafirði á milli vertíða en verið er að skoða hvernig best er að haga henni. Við ákvarðanir sem þessar er horft til efnahags-, samfélags- og umhverfislegra þátta. Félaginu ber skylda til að leita ávallt leiða til hagræða í rekstri.

Í byrjun nóvember samþykkti hluthafafundur kaup HB Granda á Ögurvík ehf. sem gerir út frystitogarann Vigra RE. Vigri RE er eitt kvótahæsta fiskiskip íslenska fiskiskipaflotans með 7.680 tonn af botnfiski og 1.663 tonn af makríl á yfirstandandi fiskveiðiári. Með kaupunum var grunnstarfsemi félagsins styrkt verulega og jókst kvóti á verðmætum botnfisktegundum um 16%, eða í 55 þúsund tonn.

Útflutningur á EPS frauðplasti

Á fyrri hluta árs var ákveðið að fjárfesta í sérstakri pressu til að minnka umfang urðunar á EPS frauðkössum en mikið magn fiskikassa fellur til hjá Norðanfiski, dótturfélagi HB Granda vegna kaupa á ferskum laxi til vinnslu fyrir innanlandsmarkað. Í kjölfarið var ljóst að ávinningur af því að minnka rúmmál urðunar yrði mikill, en við pressun minnkar ummál fiskikassanna um 95%.

Í samstarfi við Íslenska gámafélagið náðist samkomulag við kínverskt fyrirtæki sem hefur starfsstöðvar í Kína og Malasíu og óskaði það eftir að kaupa allt pressað EPS frauðplast sem fellur til hjá HB Granda. Í framhaldinu var BM Vallá boðið til samstarfs til að fylla fyrsta 40 feta gáminn af pressuðu hráefni. BM Vallá á Akranesi framleiðir einingarhús og notar mikið magn frauðplasts við framleiðslu sína. Í framleiðsluferlinu skemmist talsvert af frauðplasti sem hentar vel til pressunar. Í lok árs voru komin 7 tonn af pressuðu EPS frauðplasti; 6,5 tonn komu frá HB Granda og 0,5 tonn frá BM Vallá. Gámurinn er tilbúinn til útflutnings og gaman verður að fylgjast með framvindu verkefnisins.

Þetta kínverska fyrirtæki endurvinnur 50.000 tonn af EPS frauðplasti á hverju ári og framleiðir m.a. mynda- og speglaramma úr þessu efni. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er félagið að forða rúmlega 2.000.000 trjáa undan skógarhöggi á hverju ári og minnka þar með kolefnislosun um 100.000 tonn árlega.

Rafrænar dagbækur í skipum

Frá árinu 2015 hefur HB Grandi, í samstarfi við Klappir, Landhelgisgæsluna og Umhverfisstofnun, tekið þátt í þróun og innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu um borð í skipum sínum. Fram til þessa hafa lögbundnar skráningar um borð í skipum á umhverfisáhrifum verið bundnar í pappír. Þar má nefna skráningar á sorplosun, olíunotkun og notkun ósoneyðandi efna í pappírsbók samkvæmt MARPOL samningi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Markmiðið var að rafvæða þessar bækur og stíga þar með stórt framfaraskref á sviði umhverfisstjórnunnar.

Verkið hófst árið 2015 með innleiðingu rafrænnar sorpdagbókar í Ásbjörn RE 50. Fylgdu önnur skip HB Granda fljótt á eftir. Nú hefur fjöldinn allur af dagbókum verið rafvæddur, þ.m.t. olíudagbók, ferðadagbók og kjölfestudagbók.

Ávinningur verkefnisins er margvíslegur og snertir starfsemi fjölda aðila sem að málefninu koma. HB Grandi getur nú nýtt þau gögn, sem skráð eru í dagbækurnar, til umhverfisstjórnunnar og náð yfirsýn um alla umhverfisþætti skipa sinna, ásamt því að fylgjast með skráningum fjarrænt. Eftirlitsaðilar, s.s. Landhelgisgæslan og Umhverfisstofnun, geta nú sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki með rafrænum hætti og þannig lágmarkað þann kostnað og þau áhrif sem eftirlit með skráningum hefur á rekstur skipa. Gögnum úr dagbókunum er streymt til hafnaryfirvalda sem sinna lögbundnu hlutverki sínu við móttöku úrgangs á rafrænan hátt.

Öryggi sjómanna

Áður fyrr var algengt að sjómenn drukknuðu. Á árunum 1900-1975 drukknuðu rúmlega 40 sjómenn á ári. Frá 1975 til 1985 voru banaslys að meðaltali 14 á ári og frá 1986 til 2015 létust að meðaltali 6 menn á ári.

Engin banaslys urðu á íslenskum sjómönnum við strendur landsins á árunum 2008, 2011, 2014, 2017 og 2018.

Þennan góða árangur má þakka tækniframförum, þ.e. betri skipum og búnaði, en ekki síst starfi Slysavarnaskóla sjómanna sem stofnaður var árið 1985. Í skólanum fer fram fræðsla um öryggismál og slysavarnir. Nám við skólann er forsenda lögskráningar á skip.

HB Grandi lætur sig slysavarnir varða, sem kemur bæði fram í innra starfi, þ.e. fræðslu og forvörnum, og með því að félagið styður við bakið á öflugu slysavarna- og björgunarstarfi til sjós og lands í gegnum Slysavarnafélagið Landsbjörg. Slysavarnaskóli sjómanna er nú undirdeild í Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Ólögleg veiði

HB Grandi leggur áherslu á góða umgengni um auðlind fiskistofnanna. Félagið fer eftir öllum reglum og samþykktum sem gilda um veiðar og hefur enga aðkomu að sjóræningjaveiðum (Illegal, Unreported and Unregulated (IUU) Fishing).

Brottkast afla

Hjá HB Granda telst það til ábyrgra fiskveiða að nýta allan afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa félagsins til að skapa sem mest verðmæti. Brottkast afla er auk þess algjörlega óheimilt samkvæmt lögum um fiskveiðistjórnun.

Vigtun og skráning afla

Íslensk stjórnvöld setja strangar reglur um vigtun og skráningu sjávarafla og leggur starfsfólk HB Granda sig í líma um að fara eftir þeim. Það er mikið hagsmunamál fyrir HB Granda sem og íslenskan sjávarútveg og þjóðina alla að ástand fiskistofna sé heilbrigt og upplýsingar um fiskveiðar og umgengni við vistkerfi hafsins séu traustar, rekjanlegar og gagnsæjar.

Veiðar með botnvörpu

Botnfiskveiðar HB Granda fara svo til eingöngu fram með botnvörpu. Veiðarnar fara ávallt fram í samræmi við íslensk lög og eru allar lokanir virtar, hvort sem um ræðir tímabundnar lokanir á svæðum vegna hrygningar eða vegna viðkvæms lífríkis botnlífvera.

Fuglar og ýmsar sjávarlífverur

Fuglar og ýmsar sjávarlífverur lenda stundum í veiðarfærum skipa og fer það eftir því hvers konar veiðar eru stundaðar. Skip HB Granda hafa ekki fengið fugla í veiðarfærin en einstaka sinnum fá togarar félagsins hákarl. Hákarlinn er hirtur til vinnslu. Uppsjávarveiðiskip félagsins fá stundum hnúfubak í nótina og geta slíkar uppákomur tafið veiðar meðan verið er að stugga honum frá. Veiðum er hagað á þann hátt að reynt er að lágmarka líkur þess að hnúfubakur rati í veiðarfæri.

Stuðla að aukinni notkun á endurnýjanlegri orku

Landsnet, Rarik, HS Veitur og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa sameinast um að stuðla að aukinni notkun á endurnýjanlegri orku í fiskmjölsiðnaði á Íslandi. Með viljayfirlýsingu, sem þessir aðilar skrifuðu undir er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því að stuðla að aukinni raforkunotkun við vinnslu og draga þannig úr notkun á orkugjöfum sem gefa frá sér hærra kolefnisfótspor og um leið auka líkurnar á því að markmið Parísarsamningsins og aðgerðaráætlunar ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum náist.

Á undanförnum áratugum hafa íslenskir fiskmjölsframleiðendur notast við bæði olíu og rafmagn við framleiðslu sína. Fiskmjölsframleiðendur hafa undanfarin ár keypt skerðanlegan flutning og dreifingu á rafmagni. Vegna takmarkaðs öryggis á flutningi og dreifingu í raforkukerfinu, ótryggs framboðs á raforku og sveiflukenndrar eftirspurnar hjá fiskmjölsframleiðendum hefur olían verið nauðsynlegur varaaflgjafi í vinnslunni og komið í stað rafmagns þegar á þarf að halda. Svo verður enn um sinn.

Þeir flutnings- og dreifiaðilar, sem eiga hlut að fyrrnefndri yfirlýsingu, hyggjast á næstu árum stuðla eins og hægt er að því að flutnings- og dreifikerfið í heild nýtist á sem hagkvæmastan hátt. Á sama tíma mun FÍF stuðla að því að félagsmenn reyni að gera framleiðslu sína enn umhverfisvænni með því að nota endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa. FÍF hvetur félagsmenn sína til að nota skerðanlegan flutning og dreifingu eins mikið og framboð á slíkum flutningi og dreifingu leyfir. Árið 2017 komu 74% af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja frá endurnýjanlegri raforku og er talið raunhæft að hækka það hlutfall upp í 90% á næstu árum. Til þess að ná fullri rafvæðingu þarf hins vegar að koma til veruleg fjárfesting í flutningskerfi raforku í landinu.

Nánari umfjöllun um orkunotkun fiskmjölsverksmiðja HB Granda má finna í kaflanum um umhverfismál.