Atvinnulífið er hjartslátturinn í hverju samfélagi. Ég þekki það vel frá því ég ólst upp í litlu samfélagi hversu líf fjölskyldna og fyrirtækja eru samofin. Gagnkvæmur skilningur og stuðningur í blíðu og stríðu var ein helsta ástæða þess hve traust og heilbrigð samfélög þrifust allt í kringum landið.
Ábyrgð fyrirtækja gagnvart samfélaginu er margþætt. Hlutverk þeirra er að skapa varanleg verðmæti sem eru áþreifanleg og efnisleg og því er ábyrgðin rík þegar kemur að heilbrigðum og sjálfbærum fjárhagslegum rekstri. En lífið á ekki og má ekki vera eintómt strit. Þeir þættir í starfsemi fyrirtækja, sem ekki sjást í fjárhagsuppgjöri, skipta miklu máli og sumir þeirra eins og öryggis- og umhverfismál, eru mikilvægari en svo að hægt sé að setja á þá fjárhagslega mælikvarða.
HB Grandi hf. hefur verið í fararbroddi sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi í að gera með skipulögðum hætti grein fyrir ófjárhagslegum þáttum í starfsemi sinni með útgáfu á ársskýrslu um samfélagsábyrgð. Hún er nú gefin út í annað sinn.
Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar er grundvallargildi í allri starfsemi félagsins. Bætt umgengni við auðlindir og umhverfi og fullnýting afla, auk öryggis og vellíðan starfsfólks, eru helstu áherslur félagsins þegar kemur að ófjárhagslegum þáttum í rekstri þess. Á sviði umhverfis-, öryggis- og mannauðsmála hefur félagið nýtt nýjustu tækni og þekkingu til að ná yfirsýn, setja markmið og vinna skipulega að settu marki. Þar hefur mælanlegum árangri verið náð. Alvarlegum slysum til sjós hefur fækkað og vistspor félagsins minnkað verulega á síðustu árum, m.a. með minni olíunotkun, raftengingu skipa við höfn og markvissri flokkun úrgangs og sorps. Þá var samþykkt og innleidd persónuverndarstefna hjá fyrirtækinu sem hugar að vernd einstaklinga í samfélagi sem verður sífellt flóknara.
Hlutverk HB Granda er að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti og arðsemi úr þeim sameiginlegu náttúruauðlindum sem félaginu er treyst fyrir. Stefna félagsins er að vera samþætt sjávarútvegsfyrirtæki í útgerð, vinnslu og sölustarfssemi sem skilar eigendum arði og starfsfólki eftirsóknarverðu starfsumhverfi, starfar í sátt við umhverfið og stígur fram af fullri ábyrgð gagnvart því samfélagi sem það er hluti af. Verkefni stjórnenda er að grannskoða sem flesta þætti í virðiskeðju félagsins – veiðar, vinnslu, vöruþróun, markaðssetningu, dreifingu og sölu – í þeim tilgangi að skapa með sjálfbærum hætti sem mest verðmæti til skiptanna fyrir starfsfólk, eigendur og íslenskt samfélag.